Hugveitan er vefkerfi sem mun opna almenningi raunhæfar þverpólitískar þáttökuleiðir við stjórnun landsins.
Almenningur og stjórnvöld geta unnið saman í gagnvirku samstarfsferli jafnt og þétt yfir kjörtímabilið.
Almenningur getur nýtt samanlagða þekkingu sína og færni til að leiða erfið mál til lykta eftir þeim nýju þátttökuleiðum sem Hugveitan opnar.
Sívirkt og opið þátttökuferli Hugveitunnar opnar möguleika á þýðingameiri og dýpri þátttöku almennings heldur en hefðbundar leiðir bjóða upp á.
Almenningur gæti undirbúið og samið frumvörp að eigin frumkvæði og lagt fyrir Alþingi og jafnframt unnið að frumvarpsgerð í samstarfi við stjórnvöld.
Stærstu möguleikar internetsins í þágu lýðræðis felast í því að leiða saman áhugasama einstaklinga með ólíka þekkingu og ólíkar skoðanir til þess að vinna sameiginlega að bestu niðurstöðu í málum.
previous next
Skrifað af Guðmundur Ágúst Sæmundsson
|
Þriðjudagur, 27. Janúar 2009 19:59 |
Í ritgerðinni, Leið að eflingu lýðræðissamfélags, færi ég rök fyrir því að ekki sé hægt að tala um sannkallað lýðræði nema að ákveðnu grunnskilyrði sé fullnægt. Þetta skilyrði er að "... lýðurinn geti að eigin frumkvæði breytt sjálfu stjórnskipulaginu með friðsamlegri ákvörðunartöku." Í praktískum skilningi þýðir það að borgarar ríkisins geti kallað eftir tilteknum breytingum á stjórnarskrá og skorið úr um hvort þær breytingar nái fram að ganga, án þess að ríkjandi stjórnvöld á hverjum tíma hafi yfir að ráða lögmætum aðferðum sem komið geta í veg fyrir það. Ég mundi í raun taka svo djúpt í árinni að segja að ríki ætti ekki að kallast lýðræðisríki með réttu nema að þetta skilyrði sé uppfyllt. Ríki geta þó haft eitthvað sem getur kallast lýðræðislegt stjórnarfar án þess að uppfylla þetta skilyrði. Það er þá bara mis-lýðræðislegt stjórnarfar eftir atvikum, en ekki lýðræði.
Eftirfarandi er svo skrifað um núverandi aðferð við breytingar á stjórnarskrá Íslands (bls. 6):
"Sú leið að þurfa að kjósa stjórnmálaflokka til setu á Alþingi í fjögur ár, og í raun aftur í önnur fjögur, er mjög ómarkviss leið til þess að breyta stjórnarskrá. Sú leið gerir í raun ráð fyrir að dægurmál í kringum kosningar um stjórnvaldsstefnu á fjögurra ára fresti hafi eitthvað með grunnuppbyggingu kerfisins að gera eða megi í það minnsta blandast því. Þvert á móti má reyndar rekja ástæðu þess að víðast hvar er erfiðara að breyta stjórnarskrá heldur en almennum lögum, ekki síst til þess viðhorfs að stöðugleiki þurfi að ríkja um stjórnkerfið sem slíkt og að það eigi að vera sem mest óháð skammtímasjónarmiðum í samfélaginu. Þessi leið [íslenska leiðin] gerir breytingar vissulega erfiðar, en ekki á réttum forsendum, heldur með því að blanda saman hagsmunum. Hugmyndafræðilega er leiðin fær, en þó ekki mikið greiðari en það að kaupa verslun vanti mann að kaupa í matinn. Það getur hæglega komið upp sú staða að sá flokkur sem einhver einstaklingur vill sjá sterkastan inni á Alþingi sé eini flokkurinn sem ekki vill þær stjórnarskrárbreytingar sem einstaklingurinn vill sjá. Þá er komin upp klemma og hann þarf að taka ákvörðun um það hvort stjórn landsins næstu fjögur árin eða stjórnarskrárbreytingin á að hafa forgang. Þetta á reyndar við um öll mál, en stjórnarskráin hefur þá sérstöðu að vera grunnurinn undir réttmæti alls annars í stjórnkerfinu og því er sérstaklega mikilvægt að ákvarðanir um hana séu undir beinni stjórn almennings og byggi ekki á náð þeirra sem komnir eru í valdastöður samkvæmt því kerfi sem ríkir – og tillagan gengur hugsanlega út á að breyta. Þetta er mikilvægt öryggisatriði svo að hægt sé að leiðrétta galla sem slæðst gætu inn og gefið valdhöfum of mikil völd eða tæknilega einokun á valdi samfélagsins."
Að lokum er svo sú tillaga sem ég set fram um hvernig standa mætti betur að þessu:
"Markvissari leið til þess að halda stöðugleika í stjórnarskránni en hafa hana samt undir beinni stjórn almennings væri að setja til dæmis skilyrði um samþykki a.m.k. 50% atkvæðisbærra manna og a.m.k. 60-75% þeirra sem mæta á kjörstað. Með þessum skilyrðum gæti breytingin öðlast gildi strax eftir kosninguna eða samkvæmt þeim gildistökuákvæðum sem í tillögunni væru. Til þess að minnka áhrif dægurmála mætti síðan setja annað skilyrði um það að breytinguna þurfi að staðfesta í þjóðaratkvæðagreiðslu að 2-6 árum liðnum. Þar sem það er nauðsynlegt gætu gildistökuákvæðin í breytingatillögunni tekið mið af því."
|
|
Framvindan
Vísir að Hugveitunni er nú í vinnslu í formi hugbúnaður fyrir sveitarfélög, félagasamtök og stjórnmálaflokka. Sjá:
Hugveitan samfélagslausnir ehf. | Innovation House, Eiðistorgi 13-15, 170 Seltjarnarnesi | hugveitan (hjá) hugveitan.is | 2007