logo


Þjóðaratkvæðagreiðslur og lýðræðislegt stjórnskipulag Prenta út
Skrifað af Guðmundur Ágúst Sæmundsson   
Mánudagur, 08. Nóvember 2010 20:04

Margir tala fyrir auknu vægi þjóðaratkvæðagreiðslna í íslenskri stjórnskipun. Bundnar eru vonir við að þær geti skorið á hnúta og greitt úr ágreiningsmálum. Þó að mér finnist sjálfsagt að þjóðin ráði með beinum hætti yfir öllum þeim málum sem hún kýs að haga með þeim hætti, þá er ég efins um að þessi áhersla á þjóðaratkvæðagreiðslur muni standa undir væntingum. Ég vil flytja áhersluna í þessu máli meira yfir á aðkomu almennings að undirbúningi mála og að frumkvæðinu að framlagningu þeirra.

 

Hver leggur málin fram og hvað tryggir, eða býður upp á, raunverulegar umræður um þau? Ég legg til að almenningur undirbúi mál og leggi fyrir þing. Raunverulegar umræður myndast í því skapandi ferli sem þeim undirbúningi fylgir. Þröskuldurinn sem þarf að yfirstíga til að koma máli inn á þing og í gegnum þá skoðun sem þar fer fram virkar sem hvati til að vanda til verka. Vönduð undirbúningsvinna hlýtur svo að byggja á víðtækum umræðum og djúpri rýni. Hugveitunni er ætlað að verða vettvangur sem hentar fyrir slíka vinnu.

 

Að loknum vönduðum undirbúningi áhugasamra aðila vil ég að þing kjörinna fulltrúa með almennt umboð frá þjóðinni taki við málinu, fari vel ofan í saumana á því út frá almannahagsmunum og ríkjandi stjórnvaldsstefnu, og skeri úr um hvort það skuli ná framgangi eða ekki. Nái það ekki framgangi fylgir því rökstuðningur frá þinginu og það álit getur almenningur notað til að vinna málið áfram og leggja það aftur fyrir þingið síðar. Skapist vantraust milli stórs hluta almennings og þingsins tel ég möguleika á því að skera úr um mál í þjóðaratkvæðagreiðslu og í því tilfelli er mikill kostur að undirbúningsferli sem þetta hafi farið fram. Helst vil ég þó sjá að til þess þurfi ekki að koma, þ.e.a.s. að svo vel takist til við að sníða þinginu umgjörð að það njóti trausts í hvívetna og standi undir því trausti.

Hvenær eiga þjóðaratkvæðagreiðslur best við?

Umgjörð þingsins getur enginn sett nema almenningur sjálfur. Almenningur verður að hafa bein yfirráð yfir stjórnskipulaginu þannig að því sé hægt að breyta komi í ljós að það sé ekki að virka sem skyldi. Það þarf að gera með þjóðaratkvæðagreiðslu hvenær sem þörf krefur, og sú þjóðaratkvæðagreiðsla er hornsteinn lýðræðisins. Fyrir slíka þjóðaratkvæðagreiðslu tel ég raunhæft að virkja stóran hluta almennings til að kynna sér málin og taka um þau upplýsta ákvörðun. Eftir því sem fleiri mál fara til þjóðaratkvæðagreiðslu tel ég hins vegar að meiri léttúð skapist í kringum þær, færri taki þátt og enn færri gefi sér tíma til að kynna sér hvert mál vandlega. Ég held þess vegna að þær þjóðaratkvæðagreiðslur sem haldnar eru eigi að nýta til þess að skera úr um grundvallarmál eins og stjórnarskrá og stjórnskipunarlög en um sem fæst annað. Þannig missir tækið þjóðaratkvæðagreiðsla ekki tiltrú og vægi í þessum málum þar sem nauðsynlegt er að beita því og æskilegt er að fá sem víðtækasta þátttöku.

 

Meðan almenningur hefur full yfirráð yfir stjórnskipuninni er alltaf hægt að kippa fótunum undan kerfi sem ekki er að virka, setja upp nýtt eða sníða af því vankanta. Við gætum nýtt hvatann sem ágreiningsmál skapa til þess að byggja upp betra kerfi til framtíðar sem er eins lýðræðislegt og hugsast getur og ræður við stór og lítil ágreiningsmál án þess að fulltrúarnir fríi sig ábyrgð eða að almenningur fái útrás fyrir þau í þjóðaratkvæðagreiðslu - án þess endilega að leysa þau.

 

Til að leysa mál þarf gagnkvæm samskipti en ekki samansafn yfirlýsinga um afstöðu. Það þarf að vinna að lausn mála með aðkomu allra sem áhuga hafa, ekki úrtaks, ekki fulltrúa, heldur allra sem eitthvað vilja leggja af mörkum. Náist ekki lausn með þeim hætti má grípa til þess að höggva á hnúta með allsherjaratkvæðagreiðslum.

 

Lýðræðislegt kerfi þar sem meirihlutinn getur ekki kúgað minnihlutann og minnihlutinn getur ekki kúgað meirihlutann er flóknara en svo að það geti byggst á þjóðaratkvæðagreiðslum, nema sem varnagla og sem hornsteini sjálfs kerfisins. Ef við viljum hafa kerfið skilvirkt að auki og byggja á vel ígrunduðum ákvörðunum sem víðtæk samstaða næst um í samfélaginu verður verkefnið ennþá flóknara. Ég tel reyndar að Hugveitan eins og ég hef lýst henni, saman með þeim tillögum sem ég legg fyrir stjórnlagaþingið, sé einfaldur og traustur grunnur að slíku kerfi.

 

 

Kynningarblað

 

Hvað er Hugveitan?

Kynningarblað um Hugveituna

 

Framvindan

Vísir að Hugveitunni er nú í vinnslu í formi hugbúnaður fyrir sveitarfélög, félagasamtök og stjórnmálaflokka. Sjá:

Efnisveita

 

feed-image RSS efnisveita

 


Hugveitan samfélagslausnir ehf. | Innovation House, Eiðistorgi 13-15, 170 Seltjarnarnesi | hugveitan (hjá) hugveitan.is | creatave commons, some rights reserved 2007

 

brunette teen xxx