Lýðræðisleg þátttaka almennings - Stjórnarskrárbreytingar |
Skrifað af Guðmundur Ágúst Sæmundsson |
Föstudagur, 15. Júlí 2011 22:28 |
Eftirfarandi sendi ég Stjórnlagaráði í dag:
Í mínum huga snýst verkefni B og C nefndar Stjórnlagaráðs um að ákveða hvaða vald almenningur afsalar sér og hvernig með það skuli fara. Það snýst ekki um að færa almenningi aukin völd, nema í mjög þröngum sögulegum skilningi, því hinn náttúrulegi réttur er sá að almenningur hafi öll völd.
Í þessu ljósi teldi ég fráleitt að almenningur afsalaði sér beinu og milliliðalausu valdi til að breyta stjórnarskránni. Almenningur þarf að geta komið á breytingum á stjórnarskránni að eigin frumkvæði án þess að valdaeiningarnar sem skilgreindar eru í stjórnarskránni sjálfri geti komið í veg fyrir það. Þær eru í eðli sínu vanhæfar. Ég tel samt sem áður ekki óeðlilegt að einhverjar af þeim valdaeiningum (lesist Alþingi) geti af praktískum ástæðum haft frumkvæði að breytingum á stjórnarskrá, og geti jafnvel veitt þeim gildi. En það á ekki að vera meginreglan - jafnvel þó hún yrði mest notuð - og í þeim tilfellum sem hún er notuð þarf ávalt að vera tryggt að almenningur hafi úrræði til að standa í vegi fyrir þeim breytingum. Útfærsla þessa er mikilvægasti öryggisventillinn í stjórnarskránni og að mínu mati mikilvægasta verkefni Stjórnlagaráðs. Allar aðrar breytingar, sama hversu bráðnauðsynlegar mér finnst þær vera, falla í skuggann af þessari því þær eru þess eðlis að tryggt er þeim má koma inn í stjórnarskrána síðar ef þessi öryggisventill er til staðar.
Ég hef efasemdir um að þetta sé tryggt í áfangaskjali Stjórnlagaráðs núna og mundi í það minnsta vilja sjá það mun skýrar tekið fram.
Er öruggt að “frumvarp til breytinga á stjórnarskrá” sé “lagafrumvarp” og að þá eigi greinarnar “málskot til þjóðar” og “þingmál að frumkvæði kjósenda” einnig við um stjórnarskrárbreytingar? Ef það er hugsað svo, er þá öruggt að þessi mismunandi orðanotkun opni ekki fyrir þá túlkun að um sinn hvorn hlutinn sé að ræða?
Ef þetta er ekki skýrt þá er möguleiki á því að 5/6 hlutar þingmanna geti, samkvæmt núverandi áfangaskjali, samþykkt breytingar á stjórnarskrá án þess að almenningur geti neitt við því gert. Sú breyting gæti til dæmis – svo maður taki öfgadæmi – gengið út á að þeir 53 sem það samþykkja skuli sitja ævilangt á þingi. Langsótt, en fræðilega mögulegt. Það sem er ekki langsótt er sú staðreynd að allir þingmenn, hvar í flokki sem þeir standa, geta í vissum málum haft sameiginlega hagsmuni sem eru andstæðir hagsmunum annarra. Um það eru dæmi.
Ef þetta er ekki skýrt þá er einnig óvíst hvort frumkvæðisréttur almennings til að leggja fram lagafrumvörp nái til breytinga á stjórnarskrá. Það er slæmt. Nái hann til breytinga á stjórnarskrá sýnist mér það reyndar heldur ekki duga. Það er minn skilningur að þá þurfi Alþingi samt sem áður að samþykkja breytingarnar, eða gagntillögu við þeim, svo að þær geti öðlast gildi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá er ekki um að ræða bein yfirráð almennings yfir stjórnarskrá eins og ég skil þetta.
Niðurstaðan er sú að réttur Alþingis til að standa í vegi fyrir breytingum sem almenningur leggur til á stjórnarskrá er tryggður, á meðan réttur almennings til að standa í vegi fyrir breytingum sem Alþingi leggur til er það ekki í öllum tilfellum. Það finnst mér öfugsnúið og mikilvægt að laga.
Það er ekki alveg einfalt mál að útfæra þetta svo vel sé, en það er hægt. Sjónarmið um samstöðu, sem víða er náð fram með skilyrði um aukinn meirihluta á þingi, þarf til dæmis að taka til greina. Í fyrsta erindi mínu til Stjórnlagaráðsins nefndi ég sem dæmi að:
“... setja megi skilyrði um að a.m.k. 50% atkvæðisbærra manna og a.m.k. 60-75% þeirra sem mæta á kjörstað þurfi að samþykkja breytingatillögu svo hún öðlist gildi. Breytingin gæti öðlast gildi strax eftir kosninguna eða samkvæmt þeim gildistökuákvæðum sem í tillögunni væru. Til að minnka áhrif dægurmála mætti síðan setja annað skilyrði um að breytinguna þurfi að staðfesta í þjóðaratkvæðagreiðslu að 2-6 árum liðnum.”
Það eru fleiri leiðir, og að minnsta kosti þarf að útfæra þetta nánar. Það vil ég endilega að sé gert. Eins og ég hef lagt áherslu á er ekkert mikilvægara en að útfæra þessa beinu aðkomu almennings að stjórnarskránni tryggilega. Við getum til dæmis spurt okkur hvað þarf til næst svo að Alþingi ákveði að hleypa almenningi að breytingum á stjórnarskrá með svipuðum hætti og nú? Eins get ég spurt, hvort fulltrúar Stjórnlagaráðs séu svo fullvissir um áhrif tillagna sinna að þeir telji ekki þörf á að almenningur geti skorist beint í leikinn ef eitthvað hefur ófyrirséðar afleiðingar? Hvað um áhrif tillagnanna þegar Alþingi hefur gert sínar breytingar í meðförum málsins í þinginu?
Sumt er ekki við ráðið, en þið verðið að leggja mikla áherslu á að almenningur verði óumdeilanlega það sem kallað hefur verið “stjórnarskrárgjafinn”. Sterkasti leikurinn í þeim efnum er að útfæra ákvæðið vel og gefa því síðan sérstaka stöðu í tillögum ykkar til Alþingis. Ég mæli eindregið með að það verði gert.
|
Framvindan
Vísir að Hugveitunni er nú í vinnslu í formi hugbúnaður fyrir sveitarfélög, félagasamtök og stjórnmálaflokka. Sjá:
Hugveitan samfélagslausnir ehf. | Innovation House, Eiðistorgi 13-15, 170 Seltjarnarnesi | hugveitan (hjá) hugveitan.is | 2007