logo


Greinar
Persónukjör og Hugveitan Prenta út
Skrifað af Guðmundur Ágúst Sæmundsson   
Mánudagur, 09. Febrúar 2009 15:07

Sú hugmynd sem viðruð er í þessari grein er ekki hluti af þeirri kjarnavirkni sem lýst er í ritgerðinni.  Þetta er hugmynd um hvernig ganga má ennþá lengra og nýta Hugveituna til þess að styðja við persónukjör til Alþingis.

 

Fyrst ber þó að nefna það sem tengist kjarnavirkninni beint, sem er að með aukinni virkni sem skapast á Hugveitunni við verkefnavinnu af ýmsu tagi þá verða þátttakendur í þeirri vinnu betur inni í þeim málum sem verkefnin snúast um, og þess vegna betur upplýstir sem kjósendur.  Þar fyrir utan mun fólk kynnast hverju öðru í þessu samstarfi og þá mun fólk sem er einlægt og vinnur vel verða áberandi vegna framlags síns.  Fólk verður í meira mæli þekkt af sinni raunverulegu vinnu fyrir hag samfélagsins en síður af því hvað það er duglegt að auglýsa hana.  Nú þegar hefur bloggið stuðlað að því að kynna fram á sjónarsviðið duglegt fólk með sannan áhuga á velferð lands og þjóðar.  Með Hugveitunni mun enn frekar koma í ljós hverjir hafa mest og best til málanna að leggja við aðstæður þar sem markviss vinna að samfélagsmálum fer fram. Þetta eru hlutir sem gætu haft þau áhrif að gera hvern og einn þátttakenda að upplýstari kjósanda og verið sérstaklega til mótvægis við auglýsingamennsku ef farið verður meira út í persónukjör.  Því víðtækari sem þátttakan verður, því betur virkar þetta.  Þess vegna er mikilvægt að öll hönnun kerfisins miði að því að virkja allan almenning til markvissrar og lifandi vinnu að okkar sameiginlegu málum.

 

En þá er það hvernig Hugveitan getur tengst persónukjöri með beinum hætti.  Í því samhengi vil ég varpa fram þeirri hugmynd að kosið sé um tvo aðskilda hluti í Alþingiskosningum: Annars vegar um persónur og hins vegar um málefni.  Þannig mundi þetta líkjast meira því sem gerist innan hvers stjórnmálaflokks núna, þar sem stefnan er ákveðin til að mynda á landsfundum en frambjóðendum raðað upp í prófkjörum.  Munurinn er bara sá að allur almenningur hefði möguleika á að koma beint og milliliðalaust að borðinu með hagnýtingu Hugveitunnar. Það er engin ástæða til að ætla að meira ósamræmi yrði milli stefnunnar sem valin er og sannfæringar þess fólks sem kjörið yrði inn á þing eftir þessu fyrirkomulagi heldur en verður núna milli stefnu og hugmynda frambjóðenda innan flokkanna sem síðan enda inni á þingi.

 

En hver á að velja hvað stefnumál eru í boði á kjörseðlinum og hver á að velja hvaða persónur eru í boði?  Þar kemur Hugveitan inn.  Á Hugveitunni gæti almenningur unnið í sameiningu að því að setja saman stefnu- og málefnaskrár.  Allir gætu komið með tillögur að einstökum atriðum og heildstæðum stefnuskrám.  Eftir því sem fólk segði álit sitt á þeim með virkni sinni á Hugveitunni færðust hugmyndirnar til í listum og að lokum stæðu efstar tvær til þrjár stefnuskrár sem flestir gætu sætt sig við og þær yrðu þá valkostirnir á kjörseðlinum.  Þetta ferli er hægt að gera mjög opið, lýðræðislegt og skilvirkt.  Þær persónur sem vildu bjóða fram gætu einnig tilkynnt um framboð á Hugveitunni og fengið rafræn meðmæli tilskilins fjölda fólks þar.  Jafnvel mætti skora á fólk að bjóða sig fram með svipuðum hætti í aðdraganda kosninga. Myndin að neðan lýsir þessu ferli:

 

Myndin lýsir Alþingiskosningum þar sem kosið er með aðskyldum hætti um persónur og málefni

 

Eftir kosningar lægi fyrir heildstæð stefnuskrá fyrir þingið að vinna eftir.  Ekkert er því þó til fyrirstöðu að almenningur haldi áfram að forgangsraða, bæta inn og taka út stefnumál allt kjörtímabilið - við þekkjum að aðstæður geta breyst í grundvallaratriðum á miðju kjörtímabili.  Þingmenn mundu þá taka mið af stefnu Alþingis, eins og hún er ákvörðuð af kjósendum í Alþingiskosningum, og viljanum í samfélaginu á hverjum tíma eins og hann birtist í sívirkri stefnumótun á Hugveitunni.  Hvoru tveggja væri til hliðsjónar fyrir Alþingismenn. Að lokum mundu þeir fylgja eigin sannfæringu eftir að hafa rökrætt málin á þingi.  Þeir væru þá búnir að vega það og meta með hliðsjón af ofantöldu og þeirri sérfræðiaðstoð sem þörf er á hverju sinni.  Að lokinni atkvæðagreiðslu mætti ímynda sér að þingmenn hefðu tvo til þrjá daga til þess að gera grein fyrir afstöðu sinni, eða afstöðuleysi, með persónulegum rökstuðningi sem birtast mundi á netinu.  Þannig geta áhugasamir kjósendur betur fylgst með og kynnst störfum hvers þingmanns og tekið mið af því í kosningum bjóði hann sig fram aftur.

 

 
Lýðræði og breytingar á stjórnarskrá Prenta út
Skrifað af Guðmundur Ágúst Sæmundsson   
Þriðjudagur, 27. Janúar 2009 19:59

Í ritgerðinni, Leið að eflingu lýðræðissamfélags, færi ég rök fyrir því að ekki sé hægt að tala um sannkallað lýðræði nema að ákveðnu grunnskilyrði sé fullnægt.  Þetta skilyrði er að "... lýðurinn geti að eigin frumkvæði breytt sjálfu stjórnskipulaginu með friðsamlegri ákvörðunartöku." Í praktískum skilningi þýðir það að borgarar ríkisins geti kallað eftir tilteknum breytingum á stjórnarskrá og skorið úr um hvort þær breytingar nái fram að ganga, án þess að ríkjandi stjórnvöld á hverjum tíma hafi yfir að ráða lögmætum aðferðum sem komið geta í veg fyrir það.  Ég mundi í raun taka svo djúpt í árinni að segja að ríki ætti ekki að kallast lýðræðisríki með réttu nema að þetta skilyrði sé uppfyllt.  Ríki geta þó haft eitthvað sem getur kallast lýðræðislegt stjórnarfar án þess að uppfylla þetta skilyrði.  Það er þá bara mis-lýðræðislegt stjórnarfar eftir atvikum, en ekki lýðræði.


Eftirfarandi er svo skrifað um núverandi aðferð við breytingar á stjórnarskrá Íslands (bls. 6):


"Sú leið að þurfa að kjósa stjórnmálaflokka til setu á Alþingi í fjögur ár, og í raun aftur í önnur fjögur, er mjög ómarkviss leið til þess að breyta stjórnarskrá. Sú leið gerir í raun ráð fyrir að dægurmál í kringum kosningar um stjórnvaldsstefnu á fjögurra ára fresti hafi eitthvað með grunnuppbyggingu kerfisins að gera eða megi í það minnsta blandast því. Þvert á móti má reyndar rekja ástæðu þess að víðast hvar er erfiðara að breyta stjórnarskrá heldur en almennum lögum, ekki síst til þess viðhorfs að stöðugleiki þurfi að ríkja um stjórnkerfið sem slíkt og að það eigi að vera sem mest óháð skammtímasjónarmiðum í samfélaginu. Þessi leið [íslenska leiðin] gerir breytingar vissulega erfiðar, en ekki á réttum forsendum, heldur með því að blanda saman hagsmunum. Hugmyndafræðilega er leiðin fær, en þó ekki mikið greiðari en það að kaupa verslun vanti mann að kaupa í matinn. Það getur hæglega komið upp sú staða að sá flokkur sem einhver einstaklingur vill sjá sterkastan inni á Alþingi sé eini flokkurinn sem ekki vill þær stjórnarskrárbreytingar sem einstaklingurinn vill sjá. Þá er komin upp klemma og hann þarf að taka ákvörðun um það hvort stjórn landsins næstu fjögur árin eða stjórnarskrárbreytingin á að hafa forgang. Þetta á reyndar við um öll mál, en stjórnarskráin hefur þá sérstöðu að vera grunnurinn undir réttmæti alls annars í stjórnkerfinu og því er sérstaklega mikilvægt að ákvarðanir um hana séu undir beinni stjórn almennings og byggi ekki á náð þeirra sem komnir eru í valdastöður samkvæmt því kerfi sem ríkir – og tillagan gengur hugsanlega út á að breyta. Þetta er mikilvægt öryggisatriði svo að hægt sé að leiðrétta galla sem slæðst gætu inn og gefið valdhöfum of mikil völd eða tæknilega einokun á valdi samfélagsins."


Að lokum er svo sú tillaga sem ég set fram um hvernig standa mætti betur að þessu:


"Markvissari leið til þess að halda stöðugleika í stjórnarskránni en hafa hana samt undir beinni stjórn almennings væri að setja til dæmis skilyrði um samþykki a.m.k. 50% atkvæðisbærra manna og a.m.k. 60-75% þeirra sem mæta á kjörstað. Með þessum skilyrðum gæti breytingin öðlast gildi strax eftir kosninguna eða samkvæmt þeim gildistökuákvæðum sem í tillögunni væru. Til þess að minnka áhrif dægurmála mætti síðan setja annað skilyrði um það að breytinguna þurfi að staðfesta í þjóðaratkvæðagreiðslu að 2-6 árum liðnum. Þar sem það er nauðsynlegt gætu gildistökuákvæðin í breytingatillögunni tekið mið af því."

 
Formáli - Athugasemdir í ljósi þjóðfélagsbreytinga Prenta út
Skrifað af Guðmundur Ágúst Sæmundsson   
Föstudagur, 23. Janúar 2009 17:14

Ég útbjó nýjan formála á rafrænu útgáfuna af ritgerðinni, en hana er nú orðið hægt að hala niður hér til hliðar.  Formálinn er eftirfarandi:

 

"Á Austurvelli er öskrað „Vanhæf ríkisstjórn! Vanhæf ríkisstjórn!“  Sófaþreyttir Íslendingar sem sjaldan láta á neinu bera þramma nú niður í bæ sem aldrei fyrr og reyna að túlka, hver með sínum hætti, þá gremju og óvissu sem fengið hefur fleiri og fleiri til að gæla við áður óhugsandi hugmynd: byltingu!

 

Öðruvísi mér áður brá.

 

Sumarið 2007 þegar ég lagði lokahönd á þessa ritgerð var fátt sem benti til annars en að þær hugmyndir sem hér eru settar fram kæmust seint og illa í framkvæmd – ef nokkurn tíma.  Það var þá.  Nú er ég fullviss um að grundvöllur hafi skapast fyrir að þetta geti, í öllum meginatriðum, orðið að veruleika.

 

Ritgerðin var skrifuð með hliðsjón af því ástandi sem var.  Á þeim tíma lagði ég mikla áherslu á að lítið þyrfti að hrófla við kerfinu sem fyrir er. Meginframlag ritgerðarinnar er því sett fram sem hrein viðbót við það og litið á allar frekari breytingar á stjórnskipun og kosningakerfi sem sjálfstæðar ákvarðanir og lítið um þær fjallað.  Sá eiginleiki að geta tekið hugbúnaðinn sem hér er lýst í notkun án frekari breytinga er ennþá fullgildur en andinn í þjóðfélaginu virðist mér vera orðinn sá að hægt sé að gera sér vonir um mun róttækari breytingar á skemmri tíma en áður.  Slíkar breytingar sé ég fyrir mér að hugbúnaðurinn styðji vel við bakið á og fjölgi einnig þeim möguleikum sem hægt er að hugsa sér í því sambandi.  Dæmi um breytingar sem hugbúnaðurinn mundi auðvelda útfærslu á gætu til að mynda verið (1) persónukosningar, (2) endurskoðun á stjórnarskrá og (3) að mótaður verði rammasáttmáli af almenningi sem síðan yrði grunnurinn að stefnu þingstarfa og stjórnarsáttmála ríkisstjórnar á hverjum tíma, m.ö.o. að kosið verði um stefnu annars vegar og fulltrúa hins vegar líkt og gerist innan flokka í prófkjörum og á flokksþingum.  Fleira en þetta mætti nefna því möguleikarnir eru margir.

 

Lykilatriðið í þessu öllu er að með hugbúnaðinum yrði almenningi gert kleift að koma að stjórn landsins með þýðingamiklum, markvissum og skilvirkum hætti, allan sólarhringinn, allan ársins hring.  Ekkert er undanskilið, ekki einu sinni breytingar á hugbúnaðinum sjálfum. Hann mun þróast áfram eftir því sem reynsla af honum eykst og það mun gerast eftir ábendingum frá notendum og með vinnuframlagi þeirra sem hafa áhuga og kunnáttu til verka.

 

Þegar öllu er á botninn hvolft er hér að finna hugmynd sem fyrst og fremst er ætlað að ryðja öðrum hugmyndum braut.

 

Það úrræði eitt að öskra á Austurvelli er rýrt hlutskipti fyrir almenning.  Það er myndbirting gremju og úrræðaleysis sem stafar af því að þátttökuleiðir almennings í íslenskum stjórnmálum eru, og hafa verið, órökréttar og varðaðar óþarfa hindrunum.  Á skömmum tíma má ráða bót á þessu og veita þeim krafti sem býr í þjóðinni inn á uppbyggilegri brautir.  Það er gert með því að ráðast í smíði Hugveitunnar – hugbúnaðarins sem lýst er í þessari ritgerð – og innleiða hana í íslenska stjórnskipun.

 

22. janúar 2009
Guðmundur Ágúst Sæmundsson"

 
Beint rafrænt lýðræði Prenta út
Skrifað af Guðmundur Ágúst Sæmundsson   
Föstudagur, 02. Janúar 2009 15:52

Stundum er því hampað að með internetinu opnist möguleiki á því að kjósa heiman að frá sér eða hvaðan sem maður er staddur.  Þá heyrist einnig að með svo minnkuðu umstangi í kringum kosningar sé ekkert því til fyrirstöðu að almenningur kjósi um öll mál, eða svo gott sem. Þetta er vissulega möguleiki í stöðunni en á því eru þó ýmsir vankantar. Með nútímatækni getur beint rafrænt lýðræði orðið allt annað og meira en beinar rafrænar kosningar og þjóðaratkvæðagreiðslur. Það eru þeir möguleikar sem þessi síða gengur út á að kynna.

Mikilvægasti kostur internetsins í þágu lýðræðis er sá að borgararnir geti undirbúið málefni í samvinnu sín á milli, lagt þau fram að eigin frumkvæði og fengið þau afgreidd eftir skýrum reglum í stjórnkerfinu.

Að hafa kjörna fulltrúa er í raun ekki að missa gildi sitt með aukinni tækniþróun, vegna þess að slíkt fyrirkomulag er skynsöm verkaskipting í samfélaginu.  Með henni er létt af almenningi miklu álagi í tengslum við hagsmunagæslu og heildaryfirsýn svo að hver borgari hefur meiri tíma fyrir skapandi vinnu að þeim málum sem hann hefur mestan áhuga fyrir og mesta þekkingu á. Það sem verður þó að tryggja er að kjör fulltrúanna sé skynsamt og réttlátt og starfsumhverfi þeirra einnig.  Með aukinni þátttöku borgaranna í málefnavinnu fyrir samfélagið og með ákveðnum kerfisbreytingum að auki verður hægara um vik að tryggja það.

Á þessari síðu er kynnt hugmynd um viðbót við íslenskt stjórnkerfi, sem ætlað er að skapa réttlátt og skilvirkt aðgengi almennings að mótun samfélagsins í stærstu málum, minnstu málum og öllu þar á milli.


Með von um góðar viðtökur,

Guðmundur Ágúst Sæmundsson
hugveitan (hjá) hugveitan.is

 
« FyrstaFyrri12NæstaSíðasta »

Síða 2 af 2

Kynningarblað

 

Hvað er Hugveitan?

Kynningarblað um Hugveituna

 

Framvindan

Vísir að Hugveitunni er nú í vinnslu í formi hugbúnaður fyrir sveitarfélög, félagasamtök og stjórnmálaflokka. Sjá:

Efnisveita

 

feed-image RSS efnisveita

 


Hugveitan samfélagslausnir ehf. | Innovation House, Eiðistorgi 13-15, 170 Seltjarnarnesi | hugveitan (hjá) hugveitan.is | creatave commons, some rights reserved 2007

 

brunette teen xxx