logo


Velkomin á kynningarsíðu Hugveitunnar
Hvað er Hugveitan? Prenta út
Þriðjudagur, 27. Janúar 2009 08:03

Hugveitan er ýtarlega unnin hugmynd að vefhugbúnaði sem bætt getur lýðræðið á Íslandi til mikilla muna.  Hugmyndin fór að kvikna í kringum árið 2001 en hefur þróast og styrkst síðan þá. Hún er ekki orðin að veruleika ennþá, en með aðstoð áhugasamra getur hún orðið það innan tíðar.

Þungamiðja hugmyndarinnar snýr að því að virkja megi almenning til þátttöku í þeirri skapandi vinnu sem liggur að baki öllum aðgerðum og lagasetningum ríkisvaldsins.  Þjóðin er menntuð og hugmyndarík.  Það er synd að við skulum ekki nýta það betur við undirbúning málefna samfélagsins.  Hugveitan getur orðið tæki til þess að fá fram góðar hugmyndir, koma auga á þær, bæta þær í sameiningu og láta þær verða að veruleika.  Hún er leið til að virkja frumkvæði og sköpunarmátt borgaranna til hagsbóta fyrir samfélagið allt.

 

Hugveitan er fyrst og fremst hugmynd sem ryður öðrum hugmyndum braut

 

 
Hvers vegna Hugveitan? Prenta út
Mánudagur, 26. Janúar 2009 21:37

Ef þér hugnast eitt eða fleira af eftirfarandi skaltu skoða nánar það sem finna má á þessari síðu:

  • að róttæk lýðræðisleg umbót verði gerð á stjórnkerfi Íslands
  • að almenningur fái stóraukin tækifæri til að láta rödd sína heyrast á þýðingamikinn hátt
  • að möguleikar internetsins verði nýttir á skynsamlegan hátt við útfærslu lýðræðislegra ferla
  • að stórauknir möguleikar almennings til þátttöku hafi ekki íþyngjandi eða ólýðræðislegar hliðarverkanir
  • að gagnsæi stjórnkerfisins verði aukið til muna
  • að almenningur hafi sinn eigin þingsal á internetinu samhliða Alþingi
  • að almenningur hafi opinn aðgang að fagmannlegum lýðræðislegum samstarfsvettvangi þar sem vinna má að lagafrumvörpum, skýrslum, þingsályktunum og fleiru – og almenningur velji viðfangsefni að eigin frumkvæði
  • að almenningur hafi – í krafti tiltekinnar samstöðu – sömu úrræði og þingmenn til framlagningar þingmála á Alþingi, þ.e.a.s. frumvarpa, fyrirspurna, ályktunna og skýrsla
  • að almenningur hafi tillögu og fyrirspurnarétt – í krafti tiltekinnar samstöðu – allsstaðar í stjórnsýslunni
  • að nefndastörf á vegum stjórnvalda fari fram á opnum vettvangi sem býður upp á þátttöku almennings og samfélagslegt eftirlit með tímamörkum og virkni
  • að almenningur stjórni þjóðfélagsumræðunni í meiri mæli
  • að hver og einn þingmaður færi stuttan persónulegan rökstuðning fyrir afstöðu sinni, eða afstöðuleysi, í öllum málum sem greitt er atkvæði um á Alþingi og birti hann á þar til gerðu vefsvæði

Allt þetta snertir einhvern flöt á hugmynd sem ég skrifaði lokaritgerð um í Heimspeki, Hagfræði og Stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst sumarið 2007.

Stutt kynningarblað um kjarnahugmyndina úr ritgerðinni er að finna hér. Þar er henni lýst miðað við lágmarksbreytingar á núverandi kerfi en hugmyndin sem slík mun styðja vel við róttækar breytingar.

Nákvæmari og víðtækari lýsingu af hugmyndinni er að finna í ritgerðinni sjálfri sem nálgast má hér. Þar er einnig að finna umfjöllun um inntak lýðræðishugtaksins, gagnrýni á þá leið að breyta stjórnarskrá á tveimur þingum með kosningar í milli og fleira til.

Einhverjar hugmyndir sem ekki komust inn í ritgerðina eða sprottið hafa síðan henni var skilað er einnig að finna á síðunni eða eru væntanlegar innan skamms.  Þær snerta meðal annars:

  • að almenningur geti kosið persónur beinni kosningu til Alþingis
  • að kosning á persónum og kosning á stefnumálum verði aðskilin rétt eins og við á innan stjórnmálaflokka, á flokksþingum og í prófkjörum
  • að almenningur geti mótað tillögur að nýrri stjórnarskrá á þar til gerðu vefsvæði á jafnréttisgrundvelli
  • að almenningur gæti útbúið raðaðan lista yfir þau gildi sem hann vill að Ísland hafi í hávegum á hverjum tíma
  • að almenningur geti lagt fram og mótað stefnuskrár og verkefnalista til handa Alþingi á þar til gerðu vefsvæði
 
Beint rafrænt lýðræði Prenta út
Föstudagur, 02. Janúar 2009 15:52

Stundum er því hampað að með internetinu opnist möguleiki á því að kjósa heiman að frá sér eða hvaðan sem maður er staddur.  Þá heyrist einnig að með svo minnkuðu umstangi í kringum kosningar sé ekkert því til fyrirstöðu að almenningur kjósi um öll mál, eða svo gott sem. Þetta er vissulega möguleiki í stöðunni en á því eru þó ýmsir vankantar. Með nútímatækni getur beint rafrænt lýðræði orðið allt annað og meira en beinar rafrænar kosningar og þjóðaratkvæðagreiðslur. Það eru þeir möguleikar sem þessi síða gengur út á að kynna.

Mikilvægasti kostur internetsins í þágu lýðræðis er sá að borgararnir geti undirbúið málefni í samvinnu sín á milli, lagt þau fram að eigin frumkvæði og fengið þau afgreidd eftir skýrum reglum í stjórnkerfinu.

Að hafa kjörna fulltrúa er í raun ekki að missa gildi sitt með aukinni tækniþróun, vegna þess að slíkt fyrirkomulag er skynsöm verkaskipting í samfélaginu.  Með henni er létt af almenningi miklu álagi í tengslum við hagsmunagæslu og heildaryfirsýn svo að hver borgari hefur meiri tíma fyrir skapandi vinnu að þeim málum sem hann hefur mestan áhuga fyrir og mesta þekkingu á. Það sem verður þó að tryggja er að kjör fulltrúanna sé skynsamt og réttlátt og starfsumhverfi þeirra einnig.  Með aukinni þátttöku borgaranna í málefnavinnu fyrir samfélagið og með ákveðnum kerfisbreytingum að auki verður hægara um vik að tryggja það.

Á þessari síðu er kynnt hugmynd um viðbót við íslenskt stjórnkerfi, sem ætlað er að skapa réttlátt og skilvirkt aðgengi almennings að mótun samfélagsins í stærstu málum, minnstu málum og öllu þar á milli.


Með von um góðar viðtökur,

Guðmundur Ágúst Sæmundsson
hugveitan (hjá) hugveitan.is

 

Kynningarblað

 

Hvað er Hugveitan?

Kynningarblað um Hugveituna

 

Framvindan

Vísir að Hugveitunni er nú í vinnslu í formi hugbúnaður fyrir sveitarfélög, félagasamtök og stjórnmálaflokka. Sjá:


Hugveitan samfélagslausnir ehf. | Innovation House, Eiðistorgi 13-15, 170 Seltjarnarnesi | hugveitan (hjá) hugveitan.is | creatave commons, some rights reserved 2007

 

brunette teen xxx